Innlent

Engin leið að nýta orku við Bitru án borana

Það er engin leið að nýta orkuna við Bitru á Hellisheiði nema bora þar í jörðu, segir Einar Gunnlaugsson, deildarstjóri rannsókna hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Gerlegt væri að nýta orkuna án þess að reisa Bitruvirkjun en það yrði dýrt og hefði meiri áhrif á umhverfið.

Ásta Þorleifsdóttir, sem er varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hönd F-listans, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að ef allar fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Hellisheiði yrðu teknar fram fyrir hina umdeildu Bitruvirkjun gæti farið svo að háhitasvæðið á heiðinni yrði fullnýtt og þá ekki þörf fyrir virkjun við Bitru.

Einar Gunnlaugsson, deildarstjóri rannsókna hjá Orkuveitunni, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun, að eina leiðin til að nýta orkuna á svæði Bitru væri að bora þar niður í jörð. Ekki væri hægt að ná í þá orku til dæmis frá Hverahlíðarvirkjun.

Hitt væri mögulegt að bora eingöngu og flytja síðan vatnið með leiðslum frá Bitru en þær lagnir yrðu þá að fara margra kílómetra leið og hefðu meiri umhverfisáhrif en það að reisa virkjun við borholurnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×