Innlent

Óskar segist mæta vel mannaður til leiks

Sjálfstæðismenn og Framsókn í borgarstjórn vinna nú að því að klára málefnasamning sín á milli og þar næst verður skipað í ráð og nefndir. Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segist mæta mjög vel mannaður til leiks á næsta borgarstjórnarfundi þótt hann sé sá eini sem geti gegnt formennsku ráða.

Óskar og sjálfstæðismenn í borginni hyggjast kynna málefnasamninginn fyrir flokksmönnum sínum í dag. Óskar segir að ekki hafi verið ákveðið hverjir taki við formennsku ráða og nefnda en það verði gert á næstu dögum.

Greint hefur verið frá því að Óskar verði formaður borgarráðs en annað hefur ekki verið staðfest. Til að gegna formennsku í fagráðum Reykjavíkur þarf viðkomandi að vera starfandi borgarfulltrúi. Óskar er því sá eini sem getur sinnt formennsku þar sem Marsibil Sæmundardóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknar, styður ekki nýjan meirihluta.

Hins vegar þurfa menn ekki að vera starfandi borgarfulltrúar til að sitja í ráðunum eða gegna varaformennsku. Óskar segir það mikið áfall að Marsibil styðji hann ekki en þrátt fyrir það hafi hann fengið gríðarlegan stuðning frá framsóknarmönnum vegna nýs meirihluta.

Hann fullyrti í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hann mæti vel mannaður til leiks á borgarstjórnarfund næsta fimmtudag. Því má gera ráð fyrir að einhverjir framsóknarmenn sitji og gegni varaformennsku í fagráðum Reykjavíkurborgar út kjörtímabilið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×