Innlent

Alþýðubandalagið eyddi um efni fram

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Margrét Frímannsdóttir.
Margrét Frímannsdóttir.

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, staðfestir í samtali við Vísi að þegar hún hafi tekið við formennsku í flokknum hafi fjárhagsstaða hans verið einkar slæm og skuldir numið yfir fimmtíu milljónum króna.

Hún neitar hins vegar fyrir að fyrirrennari hennar í formennskustólnum, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi í kjölfarið tekið lán upp á annað hundrað milljónir króna til þess að greiða skuldir flokksins, meðal annars vegna óhóflegrar einkanotkunar hans á Visa-korti flokksins, eins og haldið er fram í dagbókarfærslum Matthíasar Johannessen.

„Ha, á Ólafur Ragnar að hafa tekið 107 milljóna króna lán!?" voru fyrstu viðbrögð Margrétar þegar blaðamaður Vísis las fyrir hana brotið úr skrifum Matthíasar.

„Þegar ég tók við Alþýðubandalaginu voru miklar skuldir á því, það er alveg rétt. Þær voru yfir fimmtíu milljónir. En ég samdi við lánastofnanir og starfsmenn Alþýðubandalagsins þá. Ólafur Ragnar kom ekki nálægt þeim samningum," útskýrir Margrét og segir jafnframt af og frá að lánið hafi verið jafnt hátt og Matthías nefnir.

Margrét segist heldur ekki vita til þess að Ólafur Ragnar hafi notað Visa-kort á nafni Alþýðubandalagsins umfram efni flokksins. Alla vega fékk hún aldrei neitt Visa-kort til afnota.

„Skuldirnar voru að langstærstum hluta vegna kosninga en skuldir verða alltaf til vegna þess að maður eyðir um efni fram og það gerði Alþýðubandalagið á þessum tíma," segir Margrét.


Tengdar fréttir

Dagbók Matthíasar: Forsetinn notaði kreditkort Alþýðubandalagsins

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, birti um helgina enn eitt brotið úr dagbókum sínum sem hann hélt á meðan hann var ritstjóri. Þar kemur fram í samtali við Svavar Gestsson að Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, hafi verið með kreditkort frá flokknum og notað það óspart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×