Innlent

Síðasta vika sú þriðja versta á fasteignamarkaði frá upphafi mælinga

Síðasta vika var enn ein undirmálsvikan á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu og var aðeins 49 kaupsamningum þinglýst. Þetta er þriðja versta söluvikan frá því mælingar hófust. Verktakar leita logandi ljósi að nýjum leiðum til að losna við tómar íbúðir.

Þinglýsingar í síðustu viku voru fjórtán samningum undir meðaltali síðustu tólf vikna. Veltan þessa vikuna á húsnæðismarkaðnum var innan við 17 hundruð milljónir króna en hún hefur stundum farið yfir fimm milljarða.

Nafnverð húsnæðis fer nú heldur hækkandi á ný eftir uppsafnaða lækkun upp á tæp tvö prósent síðustu sex mánuði. Hækkunin nú vegur þó hvergi nærri í við rýrnunina sem orðið hefur á raunvirði íbúða á sama tímabili af völdum verðbólgunnar.

Fullbúnar íbúðir standa nú tómar út um allt höfuðborgarsvæðið og kanna verktakar meðal annars möguleika á að að koma einhverju af þeim inn í leiguíbúðakerfi, eða Búsetakerfi, og um helgina var enn einn möguleikinn auglýstur undir heitinu: Eigðu-leigðu, sem á ættir að rekja til ýmiss konar kaupleigufyrirkomulags á bílamarkaðnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×