Innlent

Krefjast þess að ráðherra afturkalli hvalveiðiheimild

Starfsmenn og eigendur hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar segja að með ákvörðun sinni um að leyfa á ný hrefnuveiðar í atvinnuskyni sé stóriðju í ferðaþjónustu ógnað. Í yfirlýsingu sem þeir senda frá sér í kvöld krefjast hvalaskoðunarmenn að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin öll endurskoði ákvörðun sína „áður en skaðinn verður óafturkræfur," eins og segir í tilkynningunni.

„Samtök Ferðaþjónustunnar og Samtök Hvalaskoðunarfyrirtækja hafa undanfarið fundað með sjávarútvegsráðherra, utanríkisráðherra og ráðherra ferðamála og hafa þau öll lýst áhuga sínum á að gæta hagsmuna hvalaskoðunarfyrirtækja og ferðaþjónustunnar. Þau orð eru marklítil nú þegar ljóst er að veiðar hafa verið heimilaðar á 40 hrefnum sem hefjast eiga í Faxaflóa þriðjudaginn 20. maí," segir meðal annars í tilkynningunni.

Þá er sagt að hrefnan sé helsta söluvara í hvalaskoðunarferðum frá Reykjavík ásamt höfrungum, hnísum og hnúfubökum sem einnig sjáist í sumum ferðanna. „Talsmaður hrefnuveiðimanna fullyrðir að 80 til 90% hrefnanna verði veiddar á Faxaflóa sem mundi stofna okkar fyrirtæki í stórhættu. Á síðasta ári tókum við á móti rúmlega 50.000 ferðamönnum og erum þar með í hópi stærstu ferþajónustuaðila landsins. Þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra er mikið reiðarslag fyrir okkar starfsemi," segja Eldingarmenn.

Þeir segja að rannsóknir sem fyrirtækið hefur framkvæmt á hrefnum og höfrungum í Faxaflóa hafi leitt í ljós að sömu dýrin eru að sjást endurtekið á svæðinu og gefur það til kynna að um sé að ræða tiltölulega fá dýr sem koma ár eftir ár. Mikilvægt sé að halda þessum rannsóknum á lifandi hvölum áfram.

„Fullyrðing talsmanns hrefnuveiðimanna um að aldrei hafi verið líflegra en nú í Faxaflóa er dæmi um rangfærslur og áróður hrefnuveiðimanna þar sem sannleikurinn er sá að lífið í Flóanum er með minnsta móti og áberandi lítið af hrefnu. Það er líka í samræmi við niðurstöður úr hvalatalningu Hafró síðastliðið sumar sem af einhverjum ástæðum hefur ekki verið haldið hátt á lofti," segir í yfirlýsingunni.

„Fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins hefur nú beðið stjórnanda Eldingar Hvalaskoðunar í Reykjavík um upplýsingar um áætlaðar skoðunarferðir í sumar til að geta veitt í ,,góðri samvinnu við fyrirtækið". Það þykir okkur ógnvekjandi og bendir óneitanlega til að ætlunin sé að sæta lagi og veiða á milli hvalaskoðunarferða. Við viljum undirstrika að án hrefnanna í Faxaflóa er engin hvalaskoðun frá Reykjavík og starfsemi okkar leggst af."

Að lokum segir í yfirlýsingunni: „Það er einlæg skilyrðislaus krafa eigenda og starfsmanna Eldingar Hvalaskoðunar í Reykjavík að sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórn endurskoði ákvörðun sína áður en skaðinn verður óafturkræfur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×