Innlent

Kennarasambandið styður kjarabaráttu ljósmæðra

Eiríkur Jónsson, formaður KÍ.
Eiríkur Jónsson, formaður KÍ. MYND/Pjetur

Sameiginlegur fundur stjórnar og kjararáðs Kennarasambands Íslands lýsir fyrir hönd sambandsins yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu ljósmæðra.

Kennarasamband Íslands hvetur stjórnvöld og samninganefnd ríkisins til að taka nú þegar upp markvissar samningaviðræður við samninganefnd Ljósmæðrafélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandinu.

Sanngjarnt mat á menntun, ábyrgð og starfsreynslu ljósmæðra sé forsenda þess að sátt geti tekist milli samningsaðila. „Ljósmæður gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og gerðar eru miklar kröfur til stéttarinnar um menntun og ábyrgð í starfi. Lágmarksmenntun ljósmæðra er sex ára háskólanám og það ber að meta til launa.

Því skorar Kennarasamband Íslands á samninganefnd ríkisins að ganga nú þegar til samninga við ljósmæður, tryggja þeim viðunandi kjör í samræmi við menntun þeirra og ábyrgð og skapa um leið starfsfrið á stofnununum sem þær starfa á," segir í tilkynningu Kennarasambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×