Innlent

Segir Remax beita óvönduðum meðulum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Draumahús

„Þetta eru svakalegar árásir á markaðinn," segir Hjalti Pálmason, annar eigenda fasteignasölunnar Draumahúsa, og vísar til framkomu sölumanna fasteignasölukeðjunnar Remax. Segir Hjalti Remax-menn stunda þá iðju að reyna að ná hvort tveggja viðskiptavinum og starfsfólki frá öðrum fasteignasölum með óprúttnum símtölum og tilboðum.

„Þeir hringdu í nokkra hérna í gær og buðu þeim til samstarfs. Ég veit það fullvel af því að þeir hringdu í konuna mína. Þessi Axel Axelsson sem hringdi sagði að henni hefði verið borin vel sagan og að hún ætti nú að vita hver það væri sem það gerði," sagði Hjalti. „Það er nú ekki mikil rannsóknarvinna á bak við þessi símtöl hjá þeim en þeir hafa greinilega mikið álit á starfsfólkinu mínu sem er auðvitað gott," sagði Hjalti enn fremur. Hann segir greinilegt að hart sé í ári hjá Remax eins og öðrum fasteignasölum, fasteignablað Remax hafi smám saman hrapað úr 28 síðum niður í átta til 12, jafnvel enga.

Telja sig mega selja af söluskrám allra

Segir hann ótal dæmi um það að sölumenn Remax hefðu samband við seljendur sem séu með eignir í einkasölu hjá Draumahúsum og gangi jafnvel svo langt að láta seljendur brjóta þann samning sem fyrir hendi sé við Draumahús. Þetta gerist með því að Remax geri sölusamning við seljanda fasteignar þrátt fyrir að viðkomandi sé samningsbundinn Draumahúsum. Seljist eignin svo á vegum Remax gangi söluþóknun þangað en í raun séu seljendurnir skuldbundnir til að greiða söluþóknun til þess aðila sem samningur um einkasölu er gerður við. „Þegar við ætlum að rukka Remax um sölulaun í skjóli okkar samninga segja þeir bara að við séum með leiðindi," segir Hjalti og bætir því við að sölumenn Remax telji sig hafa fulla heimild til að selja eignir á söluskrám allra annarra fasteignasala þótt um einkasölu sé að ræða.

Hann segir nefnda háttsemi Remax þekkta meðal allra í fasteignabransanum þótt ekki hafi hún farið hátt. Nefndi Hjalti sérstaklega tvö tilfelli sem hans fasteignasala varð fyrir þar sem sölumenn Remax hafi reynt að færa sér í nyt þekkingarleysi fólks á fasteignaviðskiptum, ýmist vegna tungumálaörðugleika eða aldurs viðkomandi.

Viðurkenndi í símtali að þetta væri ekki rétt

„Í báðum þessum tilfellum er um fólk að ræða sem er ekki með sitt algjörlega á tæru að því er þeir [sölumenn Remax] halda. Annars vegar eru þetta útlendingar sem eru ekki klárir á lagamáli hér og íslenskunni yfirleitt og í hinu tilfellinu rúmlega sjötug kona sem býr ein," sagði Hjalti og kvað sölumenn Remax einfaldlega hafa látið erlenda fólkið hringja í Draumahús og segja að það væri hætt við að selja eignina sína en á sama tíma keypti fólkið sér eign hjá Remax sem svo seldi þeirra eign. „Þau sögðu okkur svo að Remax hefði sagt þeim að það væri allt í lagi að gera þetta svona," sagði Hjalti.

Í tilfelli eldri konunnar hafi sölumaður Remax hringt í hana og fullyrt að hann væri með kaupanda að eign hennar. Síðar hefði Hjalti sjálfur rætt við téðan sölumann Remax í síma og falast eftir upplýsingum um kaupandann.

Fá engin laun nema þeir selji

„Þá var engan veginn hægt að fá að vita neitt um þann kaupanda. Sölumaðurinn viðurkenndi að vísu fyrir mér í þessu símtali að það hefði nú ekki verið rétt að fara beint í konuna ef hann væri með kaupanda heldur hefði verið eðlilegra að tala við Draumahús.

Við vitum það alveg að það sem er að gerast núna er að það voru 77 samningar í síðustu viku. Þú þarft nú ekki að fara á margar Remax-sölur til að sjá að það eru fleiri sölumenn þar en það. Þetta dugir þeim því ekki til framfærslu og þeir borga mönnum engin laun nema þeir selji. Þá þurfa menn að borga fyrir að vera með aðstöðu hjá Remax og þess vegna beita þeir óvönduðum meðulum," sagði Hjalti að lokum.

Enn hefur ekki náðst í fyrirsvarsmenn Remax vegna fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×