Innlent

Grænfriðungar segja hrefnuveiðar kjánalegar

Hrefnuveiðimenn að störfum.
Hrefnuveiðimenn að störfum.

Greenpeace hafa sent frá sér tilkynningu í kjölfar þess að sjávarútvegsráðherra heimilaði veiðar á 40 hrefnum í dag. Í yfirslýsingunni segir að ákvörðunin sé hreint út sagt kjánaleg. Engir markaðir séu fyrir kjötið og að hvalfangararnir hendi meirihluta hvalsins.

Þá segir að tilraunir til að afla markaða erlendis hafi mistekist hrapalega og að tilgangslaust sé að veiða skepnu sem enginn vilji kaupa kjötið af, ekki síst í ljósi þess hve orðspor Íslendinga á alþjóðavettvangi geti beðið mikla hnekki.

„Íslendingar eru um þessar mundir að keppast um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna," segir Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga. „Mér þykir það leitt, en að hefja hvalveiðar þrátt fyrir alþjóðlegt bann á veiðum í atvinnuskyni og þrátt fyrir að efnahagslegar forsendur eru fyrir slíkum veiðum, mun ekki auka líkurnar á því að Ísland nái kjöri," segir Frode.

Að auki segir að hvalaskoðunarferðir séu framtíðin á Íslandi og að milljónir dollara komi inn í þjóðarbúið fyrir þeirra tilstilli. „Auk þess höfðu um 115 þúsund manns heitið því að ferðast til Íslands ef stjórnvöld hættu við áform sín um veiðar," segir Frode og bætir því við að hvalveiðar heyri fortíðinni til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×