Innlent

Guðni braut ekki jafnréttislög

MYND/GVA

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Guðna Ágústsson af kæru um að hafa brotið gegn jafnréttislögum með því að hafa í embætti landbúnaðarráðherra gengið fram hjá Ingileif S. Kristjánsdóttur við ráðningu í starf rektors Landbúnaðarháskóla Íslands.

Staðan var auglýst árið 2004 þegar skólinn varð til og var Ingileif meðal umsækjenda. Landbúnaðarráðherra skipaði hins vegar dr. Ágúst Sigurðsson í embættið og því undi Ingileif ekki. Hún leitaði því til bæði umboðsmanns Alþingis og kærunefndar jafnréttismála. Meirihluti kærunefndarinnar taldi Guðna ekki hafa brotið gegn jafnréttislögum en umboðsmaður Alþingis sagði landbúnaðarráðuneytið ekki hafa fylgt nægilega ákvæðum upplýsingalaga og stjórnsýslulaga.

Ingileif fór í framhaldinu með málið fyrir dómstóla og fór fram á það að þeir úrskurðuðu að Guðni hefði brotið gegn jafnréttislögum að hún ætti rétt á bótum vegna þess. Héraðsdómur komst hins vegar að því að dr. Ágúst stæði Ingileif framar meðal annars í stjórnunarstörfum og fræðistörfum. Var því fallist á það með landbúnaðarráðuneytinu að Ágúst væri hæfari en Ingileif og að engar engar líkur hefðu verið að því leiddar að um mismunun vegna kynferðis hefði verið að ræða þegar skipað var í stöðu rektors. Var landbúnaðarráðherra því sýknaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×