Innlent

Geir: Sagnfræðiritgerð Vals kemur pólitík í dag lítið við

Áhugaverð sagnfræðiritgerð sem kemur pólitíkinni í dag afskaplega lítið við, segir Geir H. Haarde forsætisráðherra um nýútkomna bók Vals Ingimundarsonar þar sem fram kemur að Ísland hafi verið komið á stuðningslista fyrir Íraksstríðið áður en málið var rætt á ríkisstjórnarfundi.

Eftir að bók Vals kom út hafa vaknað úr dvala vangaveltur um hvenær Ísland lýsti yfir stuðningi við innrás Bandaríkjamanna í Írak. Valur heldur því fram að stuðningur íslenskra stjórnvalda hafi legið fyrir degi áður en íslenskir ráðamenn, einkum þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, hafa haldið fram - eða strax 17. mars 2003. Breski sendiherrann hafi þann dag fengið formlegt samþykki íslenskra stjórnvalda - þar sem til stóð að Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, teldi stuðningsþjóðirnar upp í ræðu.

Málið snýst um hvort ríkisstjórn hafi rætt þessa ákvörðun eða hvort hún var einhliða tekin af Davíð Oddssyni með eða án vitundar Halldórs Ásgrímssonar. Hafi stuðningurinn legið fyrir 17. mars, var hann ekki ræddur á ríkisstjórnarfundi - því málið var ekki tekið fyrir á þeim vettvangi fyrr en daginn eftir.

Halldór sagðist í fréttum Stöðvar 2 í gær ekki kannast við aðkomu Breta. Núverandi forsætisráðherra kannast heldur ekkert við að stuðningur hafi legið fyrir áður en ríkisstjórn ræddi málið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×