Innlent

Smáframboð geta valtað yfir stærri flokka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur segir að í lýðræðisríki sé öllum heimilt að bjóða fram.
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur segir að í lýðræðisríki sé öllum heimilt að bjóða fram.

„Sú staða hefur oft komið upp að minni stjórnmálaflokkar nái töluvert meiri áhrifum en fylgið þeirra gefur tilefni til," segir Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. „Minni flokkarnir geta haft töluverð áhrif. Við höfum séð það í dæmigerðum helmingaskiptaríkisstjórnum , þar sem Alþýðuflokkurinn hafði meiri völd í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en fylgið gaf tilefni til," segir Einar. Sama megi segja um Framsóknarflokkinn sem hafi oft náð góðri stöðu í ríkisstjórn miðað við fylgið.

Einar bendir á að hið sama hafa verið upp á teningnum í borginni á þessu kjörtímabili. Björn Ingi Hrafnsson hafi samið ágætlega við sjálfstæðismenn í upphafi og Ólafur F. Magnússon hafi jafnframt samið vel við sjálfstæðismenn. „Þannig að smáflokkar geta komist í ákveðna lykilstöðu ef þeir nái manni inn og komist í meirihluta," segir Einar Mar. Hann segir að minni flokkarnir vilji ekki falla í skuggann og láta stærri flokkinn valta yfir sig, en svo geti það jafnframt gerst að minni flokkurinn valti yfir stærri flokkinn.

Einar segir að þrátt fyrir að völd slíkra smáflokka kunni að virðast óeðlilegt, að þá sé lýðræðið einfaldlega þannig að öllum sé heimilt að bjóða fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×