Innlent

Sjálfstæðismenn vilja Óskar frekar en Ólaf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óskar Bergsson mun hugsanlega taka þátt í myndun nýs meirihluta
Óskar Bergsson mun hugsanlega taka þátt í myndun nýs meirihluta

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna íhugar hvort slíta skuli meirihlutasamstarfi við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra, gangi ekki að taka Óskar Bergsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, inn í núverandi meirihluta, líkt og sjálfstæðismenn hafa hug á.

Borgarstjórnarmeirihlutinn hangir á einum manni og sjálfstæðismenn óttast að samstarfið við Ólaf verði viðkvæmara þegar að Hanna Birna Kristjánsdóttir tekur við borgarstjórastólnum af Ólafi snemma á næsta ári. Þess vegna vilja þeir helst freista þess að styrkja meirihlutann með því að taka Óskar inn í meirihlutasamstarfið með Ólafi. Þessar hugmyndir voru reifaðar við Ólaf borgarstjóra í gær og herma heimildir Vísis að hann hafi tekið fálega í þær.

Þá hefur Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins sagt að ekki komi til greina að framsóknarmenn gangi inn í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og F-lista í borginni. Marsibil Sæmundsdóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, tók í svipaðan streng í samtali við Vísi í morgun.

Þreifingar hafa verið í gangi á undanförnum dögum um breytingar á meirihlutanum en engar formlegar viðræður hafa verið í gangi. Heimildir Vísis herma að ef ekki náist að mynda nýjan meirihluta með bæði Ólafi og Óskari muni sjálfstæðismenn íhuga vandlega að skipta Ólafi út fyrir Óskar.

Hvorki náðist tal af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Óskari Bergssyni, né Ólafi F. Magnússyni við vinnslu þessarar fréttar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×