Erlent

Andlát lögreglustjóra Manchester rannsakað - ekkjan gefur skýrslu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Carolyn Todd.
Carolyn Todd. MYND/PA

Ekkja Mikes Todd, fyrrum lögreglustjóra Manchester, komst að því þremur dögum fyrir andlát manns síns að hann átti sér hjákonu, eftir því sem hún hefur sagt rannsóknarnefnd sem skipuð var í kjölfar dauða Todd.

Lík hans fannst ásamt tómri ginflösku við rætur Snowdon, hæsta fjalls Wales, í mars og reyndist áfengismagn í blóði lögreglustjórans verulegt. Ljóst er að hann hrapaði ekki til bana en dánardómstjóri Norðvestur-Wales mun skera úr um hvort hann hafi stytt sér aldur eða dauða hans hafi borið að með öðrum hætti.

Dave Whatton, yfirlögregluþjónn í Manchester, tjáði rannsóknarnefndinni að viðbragðsáætlun hefði verið sett í gang eftir að ekkjan, Carolyn Todd, sagði lögreglunni að hún hefði gengið á mann sinn og spurt hann um framhjáhaldið. Todd hafði þá verið saknað í þrjá daga.

Eftir dauða hins fimmtuga lögreglustjóra leiddi rannsókn í ljós að hann hafði haft um tylft hjákvenna á fimm ára tímabili. Ekkja Todd hefur ekki stöðu vitnis við rannsóknina á dauða manns síns en mun gefa rannsóknarnefndinni munnlega yfirlýsingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×