Innlent

Greiddi tæpar tvær milljónir í þóknun fyrir fíkniefnasmygl

Einn hinna ákærðu Annþór Kristján Karlsson leiddur fyrir dómara.
Einn hinna ákærðu Annþór Kristján Karlsson leiddur fyrir dómara.
Fjórir menn eru ákærðir fyrir að hafa staðið að og skipulagt smygl á rúmlega 4,6 kílóum af amfetamíni og nærri 600 grömmum af kókaíni frá Þýskalandi í svokölluðu hraðsendingarmáli.

Þeir eru Annþór Kristján Karlsson, Tómas Kristjánsson og bræðurnir Jóhannes Páll og Ari Gunnarssynir.

Efnin voru flutt til landsins með hraðsendingarfyrirtækinu UPS, þar sem Tómas starfaði og fundu lögregla og tollur þau 15. nóvember í bifreið fyrirtækisins fyrir utan húsnæði þess á Keflavíkurflugvelli.

Annþór Kristján Karlsson er ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um smyglið með Ara með því að hafa látið senda fíkniefnin frá Þýskalandi til Íslands.

Annþór hugðist taka á móti þeim hér. Hann afhenti Ara 10 þúsund evrur, jafnvirði um 1,2 milljóna króna, og 500 þúsund krónur í reiðufé sem þóknun vegna innflutningsins.

Tómas Kristjánsson er sakaður um að hafa lagt á ráðin um innflutninginn ásamt Jóhannesi Páli. Samkvæmt ákæru á Tómas að hafa notað sér aðstöðu sína sem starfsmaður hraðsendingarfyrirtækisins UPS á Keflavíkurflugvelli til þess að miðla til Jóhannesar upplýsingum um hvernig haga skyldi innflutningnum. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×