Innlent

Borgarstjórnin styrkist með innkomu Óskars

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. MYND/Valgarður

„Ég er sæll og glaður með þetta," segir Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins þegar hann er spurður að því hvernig honum lítist á nýjan meirihluta sjálfstæðismanna og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur. „Við ætlum að styrkja borgarstjórnina og það gerum við með því að fá Framsóknarflokkinn og þennan afbragðsmann inn," segir Júlíus og á þar við Óskar Bergsson, borgarfulltrúa.

Júlíus segir stöðuna í fyrri meirihluta hafa verið orðna þannig að ekki hafi gengið að halda áfram, ásteitingarsteinarnir hafi verið of margir. „Þau dæmi hafa verið tekin upp í fjölmiðlum að undanförnu þannig að það þarf ekki að fara nánar út í það," segir Júlíus.

Að hans sögn er fullur einhugur á meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þessa skipan mála. „Það eina sem vafðist fyrir mönnum voru þau persónulegu samskipti sem menn hafa átt við Ólaf F. Magnússon sem hafa að flestu leyti verið mjög ánægjuleg. En að sama skapi bera menn ábyrgð á því að stjórna borginni á sem bestan hátt sem mögulegt er og því var ákveðið að fara þessa leið."

Júlíus segist eiga von á því að nokkur mál komi til með að breytast í meðförum nýs meirihluta frá því sem var án þess að hann vilji tiltaka einstök mál að svo stöddu. „Við störfuðum í upphafi kjörtímabilsins með Framsóknarflokknum og það gekk mjög vel og bar ekki skugga á fyrr en REI málið kom upp eins og menn þekkja."

Júlíus segir þó ljóst að nýji meirihlutinn muni ekki sigla lygnan sjó fram að kosningum því mikið verk sé fyrir höndum. „Það getur gefið á bátinn því efnahagsástandið er þannig að við þurfum að takast á við ýmis mál sem verða ekki auðveld og kannski ekki vinsæl. Það þarf til dæmis að endurskoða ýmislegt í fjárhagsáætlun borgarinnar í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagslífinu," segir Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×