Innlent

Vilhjálmur braut ekki gegn reglum borgarinnar

MYND/Vilhelm

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, braut ekki gegn innkaupareglum Reykjavíkurborgar þegar hann fór í veiðiferð ásamt nokkrum öðrum í Miðfjarðará í fyrra. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra við fyrirspurn borgarfulltrúa Vinstri - grænna og Samfylkingarinnar.

Líkt og Vísir greindi frá fyrir skemmstu fóru Guðlaugur Þór Þórðarson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Haukur Leósson og Björn Ingi Hrafnsson í veiði í Miðfjarðará um miðjan ágúst fyrir ári. Fram hefur komið að á sama tíma var Baugur með öll veiðileyfi árinnar á leigu. Haukur segir að hann hafi greitt Baugi 480 þúsund fyrir þrjú veiðileyfi og boðið Guðlaugi, Birni Inga og Vilhjálmi að þiggja þau.

Borgarfulltrúar minnihlutans spurðu Hönnu Birnu á fundi borgarráðs í síðustu viku hvort hún hefði látið kanna málavexti umræddrar veiðiferðar og hvort hún stangis á við reglur borgarinnar. Í svari sem lagt var fram á fundi borgarráðs í dag segir Hanna Birna að samkvæmt innkaupareglum borgarinnar sé starfsmönnum Reykjavíkurborgar og fulltrúum í nefndum, ráðum eða stjórnum á vegum Reykjavíkurborgar óheimilt að þiggja boðsferðir sem tengjast viðskiptum við Reykjavíkurborg nema með sérstakri heimild borgarstjóra hverju sinni.

„Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur er ákvæði í innkaupareglum fyrirtækisins sem kveður á um að starfsmönnum sé óheimilt að þiggja boðsferðir sem tengjast viðskiptum fyrirtækja við Orkuveitu Reykjavíkur nema með sérstakri heimild forstjóra. Ákvæðið nær ekki til fulltrúa í stjórn fyrirtækisins," segir í svari Hönnu Birnu.

Þá segir Hanna Birna að Vilhjálmur hafi sagt að ferðin hafi ekki verið farin í boði fyrirtækis, hún hafi verið farin í boði vinar og félaga til áratuga og að honum hafi verið ókunnugt um aðkomu Baugs að Miðfjarðará. Miðað við þau svör megi ljóst vera að þáverandi borgarstjóri braut ekki gegn reglum Reykjavíkurborgar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×