Innlent

Ríkið þurfi að koma að kaupum á lager verka Laxness

Forlagið hefur auglýst allan lager verka Halldórs Laxness og útgáfurétt Íslenskrar orðabókar og Íslendingasagna til sölu. Útgáfustjóri Forlagsins efast um að kaupandi finnist að verkunum nema með aðkomu ríkisins.

Það var í september í fyrra sem tilkynnt var um samruna JPV-útgáfu, Máls og Menningar og Vegamóta ehf. Samkeppniseftirlitið lagðist gegn samrunanum en síðar var gerð sátt sem fól í sér að Forlagið léti frá sér tiltekin útgáfuréttindi til að draga úr markaðsstyrk þess gegn keppinautum.

Þetta eru engin smáréttindi því Forlagið þarf að selja frá sér allan lager og útgáfugögn verka Nóbelskáldsins Halldórs Laxness auk lagers og útgáfuréttar á Ensk-íslenskri orðabók, Íslenskri orðabók, Íslendingasögum, Sturlungu, Sögu Reykjavíkur og Íslenskum samtíðarmönnum. Útgáfuréttur á verkum Halldórs Laxness er þó ekki til sölu þar sem hann liggur hjá ættingjum Halldórs.

Ljóst er að mikil verðmæti felast í útgáfuréttinum af þessum verkum. Jóhann Páll Valdimarsson, útgáfustjóri Forlagsins, vill ekki gefa upp nákvæma tölu en segir þau nema hundruðum milljónum króna. Þar að auki segir Jóhann að mikil ábyrgð fylgi þessum réttindum því reglulega þarf að uppfæra orðabækur og sá kostnaður hleypur á hundruðum milljóna.

Mál og Menning keypti á sínum tíma útgáfuréttinn af ríkinu og segir Jóhann Páll það skjóta skökku við ef ríkið myndi kaupa þann rétt aftur. Finnist ekki kaupandi réttindunum fellur það í skaut Samkeppnieftirlitsins að selja þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×