Viðskipti innlent

Umfangið meira en Kárahnjúkavirkjun

Óli Kristján Ármannsson skrifar
F-35 orrustuþota frá Lockheed Martin
F-35 orrustuþota frá Lockheed Martin
Stork Aerospace hefur landað samningi við Lockheed Martin sem metinn er á um tvo milljarða Bandaríkjadala, eða yfir 150 milljarða króna.

„Til að setja hlutina í samhengi má benda á að þetta er heldur meira en kostaði að byggja Kárahnjúkavirkjun,“ útskýrir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest, en samkvæmt nýlegri skýrslu iðnaðarráðherra nam sá kostnaður rúmum 133 milljörðum króna. Eyrir Invest á fimmtán prósenta hlut í Stork-iðnsamstæðunni hollensku, Landsbankinn tíu prósent og breski fjárfestingarsjóðurinn Candover 75 prósent.

Samstarfssamningurinn, sem undirritaður var á föstudag, gengur út á að Fokker Elmo, dóttur­fyrirtæki Stork Aerospace, framleiðir stuðningsvíravirki í F-35 JSF orrustuþotuna sem Lockheed Martin þróar.

Árni Oddur segir að af undirverktökum sem komi að íhlutasmíði í flugvélaiðnaði hafi Stork Aerospace nokkra sérstöðu, enda sá eini sem hafi burði til að smíða heilar flugvélar, og byggi þar á grunni Fokker-flugvélaverksmiðjanna.

Samningur Stork Aero­space og Lockheed Martin er sá stærsti sem hollenskt iðnfyrirtæki hefur gert um samstarf við „Joint Strike Fighter“-áætlunina. Til marks um það var efnahagsmálaráðherra Hollendinga, Maria van der Hoeven, viðstödd undirritun samstarfssamningsins, auk Beatrix Hollandsdrottningar og fleiri fyrirmenna.

 

Kaup kynnt Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Eyris Invest, sem á fimmtán prósenta hlut í Stork í Hollandi. Eyrir er jafnframt stærsti hluthafi Marels Food Systems sem var að kaupa matvælavinnsluvélahluta Stork, en Árni Oddur er líka stjórnarformaður Marels.Markaðurinn/GVA
Í byrjun þessarar viku var tilkynnt að öll skilyrði vegna yfirtöku Marels Food Systems á Stork Food Systems, sem áður var matvælavinnsluvélahluti Stork-samstæðunnar, væru að fullu uppfyllt með því að evrópsk samkeppnisyfirvöld gerðu ekki athugasemd við kaupin.

Þegar gengið hefur verið frá lausum endum vegna kaupanna tekur Árni Oddur sæti í stjórn Stork í Hollandi, en það gat hann ekki gert fyrr vegna þess að hann er jafnframt stjórnarformaður Marels Food Systems.

„Afkoma Marels á fyrsta ársfjórðungi verður birt 6. maí næstkomandi, en daginn eftir höldum við kynningarfund þar sem farið verður ítarlega yfir kaupin á Stork Food Systems og starfsemin kynnt betur ásamt framtíðaráætlunum,“ segir Árni Oddur, en með á þeim fundi verða einnig Hörður Arnarson, forstjóri Marels Food Systems, og Theo Hoen, forstjóri Stork Food Systems.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×