Skoðun

Vitlaus misskilningur?

Þorgrímur Gestsson skrifar

Þorgrímur Gestsson svarar Höskuldi Þórhallssyni:

Já, vissulega erum við Þórhallur Höskuldsson alþingismaður lentir í undarlegri ritdeilu, eins og hann skrifar í Fréttablaðinu fimmtudaginn 25. júlí.

Hún er undarleg vegna þess að hún snýst ekki um aðalatriði fyrstu greinar minnar, sem er að engin „þjóðarsátt“ varð um að gera RÚV að opinberu hutafélagi eða hlutafélagi yfirleitt. Þvert á móti var það ákaflega umdeilt.

Í öðru lagi sagði ég að rekstrarformið hefði ekkert með afkomu RÚV að gera – þar af leiðandi kenndi ég því ekki um ástandið á RÚV nú. Hins vegar sagði ég að „kosturinn“ við hlutafélagaformið væri að það gerði mögulegan niðurskurð og samdrátt í stað þess að forsenda ríkisútvarps, almannaútvarps, er að haldið sé úti viðunandi dagskrá.

En hvort tveggja rekstrarformið krefst þess sama: Að stjórnvöld tryggi RÚV nægilegt rekstrarfé. Já, þar held ég að Sjálfstæðisflokkurinn hafi svikið og Samfylkingin sé í hlutverki Brútusar í þessu máli. Þar erum við Þórhallur sammála en ég áskil mér fyllsta rétt til að hafa þá skoðun að Framsóknarflokkurinn hafi svikið RÚV í tryggðum eftir margar stuðningsyfirlýsingar við stofnunina, þegar þingmenn hans greiddu atkvæði með núverandi lögum.

Kannski get ég fallist á það, svona að lokum, að Þórhallur Höskuldsson hafi misskilið mig vitlaust.

Höfundur er formaður Hollvinasamtaka RÚV.




Skoðun

Sjá meira


×