Innlent

Verkfærum fyrir milljónir stolið af byggingarsvæðum

Verkfærum fyrir margar milljónir króna hefur verið stolið af byggingasvæðum og úr nýbyggingum undanfarin misseri og hafa þau horfið sporlaust. Grunur leikur á að þeim sé smyglað úr landi.

Lögregla leitar nú tveggja manna sem brutust inn í íbúðarhús í Holtunum í Reykjavík undir morgun og stálu þaðan verðmætum rafmagnsverkfærum. Lögregla hefur greinargóða lýsingu á mönnunum sem hún telur að muni leiða til handtöku þeirra.

Mikið hefur verið um verkfæraþjófnað að undanförnu úr nýbyggingum og húsum sem verið er að gera upp, eins og í þessu tilviki, og telur lögregla að um skipulega starfsemi sé að ræða. Í fyrra fannst mikið af verkfærum í gámi sem átti að senda úr landi og leikur grunur á að viðlíka starfsemi sé enn í gangi.

Þá hefur lengi leikið grunur á að ýmsum öðrum varningi, einkum hljómflutningstækjum, skjávörpum og GSM-símum sé smyglað út landi en ekki hefur tekist að afla óyggjandi sannana um það. Það á bæði við um verkfærin og hljómflutningstækin að þrátt fyrir að miklu sé stolið af þessum hlutum virðast þeir hvergi vera til sölu sem gæti bent til útflutnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×