Innlent

Staðfest gæsluvarðhald vegna hnífstunguárásar

Árásin á Chilebúann átti sér stað hér.
Árásin á Chilebúann átti sér stað hér. MYND/AP

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um aðild að líkamsárás þar sem chilesku karlmaður var stunginn hnífi aðfaranótt föstudagsins fyrir verslunarmannahelgi.

Maðurinn var ásamt þremur öðrum úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir síðustu helgi eftir að eftirlitsmyndavélar sýndu að þeir hefðu verið á ferli nærri staðnum þar sem árásin átti sér stað. Einum mannanna var sleppt á mánudag en tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald til morgundagsins á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Annar þeirra skaut þeim úrskurði til Hæstaréttar sem staðfesti ákvörðun héraðsdóms. Segir í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í árásinni en eftir sé að upplýsa nægilega um þátt han í árásinni.

Segir lögregla að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, einkum í því ljósi að sakborningar málsins virðist hafa sammælst um sögu sína hjá lögreglu auk þess sem eftir sé að upplýsa hvort tveir eða einn maður hafi átt þátt í ofangreindri árás.

Þótti lögreglu ástæða til að ætla að gangi kærði laus geti hann torveldað rannsókn málsins, til að mynda með því að skjóta undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða aðra sakborninga málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×