Skoðun

Þjórsá og Sól í Straumi

Jón Bjarnason skrifar

Það vakti aðdáun og sterkar framtíðarvonir þegar Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álbræðslunnar í Straumsvík í íbúakosningu fyrir rúmu ári síðan og „Sól í Straumi" - samtök umhverfis- og náttúruverndarsinna og þeirra sem töldu nóg komið af álbræðslum fögnuðu sigri.

Í þeim hörðu átökum lá ljóst fyrir að virkja þurfti enn frekar í Þjórsá til að sjá aukinni álbræðslu í Straumsvík fyrir raforku. Slagurinn gegn stækkun álbræðslunnar í Straumsvík var því nátengdur baráttunni fyrir verndun Þjórsár.

Samtökin Sól á Suðurlandi studdu dyggilega baráttu félaga sinna í Hafnarfirði og jafnvel er fullyrt að framlag þeirra á lokametrum átakanna hafi ráðið úrslitum um að stækkun álbræðslunnar var felld. En áfram sækja álrisarnir og Landsvirkjun að náttúruperlum Þjórsár. Í fréttum þessa dagana fagnar forstjóri Landsvirkjunar að hans mati, áfanga sigri í herförinni að Þjórsá og lýsir því yfir að raforka úr næstu virkjunum í ánni ætti m.a. að fara til aukningar á framleiðslu álbræðslunnar í Straumsvík. Nýtur hann þar stuðnings ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Um eða yfir 80% af raforkuframleiðslu landsmanna fara nú til álbræðslna.

Íbúar við Þjórsá, Sól á Suðurlandi og náttúruverndarsinnar um allt land munu standa með perlum Þjórsár og gegn virkjunaráformunum og berjast til sigurs þótt það kosti „blóð svita og tár". Nú þegar stjórnvöld sækja enn á ný og af auknum þunga í orku frá náttúruperlum Þjórsár til álframleiðslu í Hafnarfirði er eðlilegt að spurt sé: hvar er Sól í Straumi og stuðningur annarra þeirra Hafnfirðinga sem börðust svo hetjulega gegn stækkun álbræðslunnar í Straumsvík fyrir aðeins nokkrum misserum?

Það er ekki trúverðugt að vinna verkin, en með „hnút í maganum" eins og sumir þeir sem svíkja nú dýrustu kosningaloforð sín og náttúruperlur Þjórsár til að geta vermt ráðherrastólana. - „Fagra Ísland", hvar ert þú? -

Þess vegna er enn mikilvægara að náttúruverndarsinnar og aðrir þeir sem telja nóg komið af álbræðslum og mengandi stóriðju þétti raðir sínar. Það er mikil barátta fram undan.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×