Erlent

Spenna á landamærum Thailands og Kambódíu

Vaxandi spenna er á landamærum Thailands og Kambódíu og standa hermenn beggja ríkjanna nú gráir fyrir járnum sitt hvoru megin við landamærin. Deilan snýst um hvort ríkið eigi tilkall til forns búddahofs sem stendur þar í rjóðri.

Til átaka kom í tælenskum landamærabæ í morgun þegar lögregla stöðvaði hóp þjóðernissinnaðra Tælendinga sem vildu komast að hofinu til að mótmæla meintum yfirgangi Kambódíumanna.

Fjögur hundruð tælenskir hermenn og einir 800 frá Kambódíu hafa verið fluttir að hofinu sem stendur á landamærum ríkjanna norður af Angkor Wat hofunum í Kambódíu, ekki langt frá þar sem landamæri Tælands, Laos og Kambódíu mætast.

Deilan blossaði upp á þriðjudaginn þegar kambódískir hermenn handtóku þrjá tælenska mótmælendur við hofið. Íbúar á svæðinu eru sagðir hafa forðað sér af ótta við átök.

Alþjóðadómstóllinn úrskurðaði 1962 að Preah Vihear hofið skuli heyra til Kambódíu en svæðið þar í kring er umdeild.

Þegar Sameinuðu þjóðirnar settu hofið á heimsminjaskrá í síðustu viku kviknuðu gamlar þjóðernistilfinningar í Tælandi - og hermenn voru fluttir inn á landamærasvæðið. Kambódíumenn telja hermennina vera innan landamæranna en Tælendingar segjast vera fyrir utan.

Hun Sen, forsætisráðherra Kambódíu, hefur hvatt starfsbróður sinn í Tælandi til að kalla hermennina til baka, annars geti ástandið farið úr böndunum. Þeir hafa ákveðið að hittast og ræða málin í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×