Innlent

Tveim meðferðarheimilum hefur verið lokað

Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur á Barnaverndarstofu, segir að nauðsynlegt hafi verið að bregðast við því þegar meðferðarheimili fyrir börn stóðu hálftóm.
Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur á Barnaverndarstofu, segir að nauðsynlegt hafi verið að bregðast við því þegar meðferðarheimili fyrir börn stóðu hálftóm. Fréttablaðið/GVA

Tveim meðferðarheimilum fyrir börn hefur verið lokað það sem af er þessu ári. Heimili á Hvítárbakka í Borgarfirði var lokað í upphafi ársins og í vor var heimilinu að Geldingalæk á Rangárvöllum einnig lokað.

Bæði heimilin buðu upp á sérhæfða langtímameðferð fyrir börn með alvarleg hegðunarvandamál á borð við neyslu áfengis og vímuefna og voru sex rými á hvorum stað. Yngri börn voru að jafnaði vistuð á Geldingalæk þar sem flest barnanna voru á aldrinum tíu til fjórtán ára.

„Umsóknum hefur fækkað og við verðum að bregðast við þegar heimilin eru farin að standa hálftóm," segir Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur á Barnaverndarstofu, en síðastliðin fimm ár hefur dregið úr eftirspurn eftir meðferðardvöl á stofnunum stofunnar. Sótt var um meðferð fyrir 195 börn árið 2003 samanborið við 164 á síðasta ári.

Barnaverndarnefndir meta þarfir einstakra barna og senda umsóknir til Barnaverndarstofu ef þörf er á meðferð. „Við höfum ekki fundið einhlíta skýringu á þessari fækkun og getum ekki séð að nefndirnar vanræki þarfir þessara barna," segir Hrefna.

Aukin áhersla hefur þó undan­farin ár verið lögð á að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverkinu. Reynt er að hjálpa börnum og foreldrum frekar á heimavelli en að grípa til vistunar utan heimilis, ekki síst fyrir yngri börnin.

„Við erum að skoða hvaða möguleika við höfum á að bjóða fjölbreytt fósturúrræði fyrir yngri börn og veita meiri þjálfun fyrir fósturforeldra," segir Hrefna. „Við vitum að það getur reynst afdrifaríkt að taka barn úr umhverfi sínu og vandasamt að yfirfæra árangur meðferðar yfir á hið daglega líf barnsins."

Þá bendi kannanir sem gerðar hafa verið hérlendis til þess að neysla barna fari minnkandi og vísbendingar eru um að afbrotum þeirra fari í það minnsta ekki fjölgandi.

Þá hefur styttri dvöl verið reynd og gagnast sumum börnum, sem leiði til minni eftirspurnar eftir langtímameðferð eins og veitt var á heimilunum sem nú hefur verið lokað.

„Við vistum börn á heimilunum í þeirri von að meðferðin muni gagnast," segir Hrefna. „Það er ekki æskilegt að börn séu vistuð árum saman á stofnun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×