Innlent

Húsin við Laugaveg keypt með samþykki Ólafs

„Það var eitt helsta baráttumál Ólafs F að húsin við Laugaveg 4-6 yrðu endurbyggð sem næst sinni upprunalegu mynd," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, segir í Fréttablaðinu í dag að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi hafi átt frumkvæði að því að húsin við Laugaveg 4 til 6 voru keypt á 580 milljónir og keyrt málið áfram af mikilli hörku. Ólafur segir að það hafi verið valtað yfir hann í þessu máli. Þetta hafi verið gert til að bjarga Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur úr snörunni, en hún hafi átt að taka ákvörðun um friðun húsanna.

Vilhjálmur segir að það hafi verið ákveðið að fá fram hugmyndir eigenda lóðanna ef til þess kæmi að borgin keypti húseignirnar á lóðum Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 1. Þeir hafi kynnt sér og nokkrum öðrum borgarfulltrúum sínar verðhugmyndir sem hafi verið töluvert hærri en niðurstaðan hafi verið. Nokkrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkisins hafi síðan farið yfir málið ásamt Ólafi F. og í framhaldinu hafi eigendum lóðanna verið gerð grein fyrir því að ekki væri hægt að leggja fyrir borgarráð hærri greiðslu en raunin varð.

„Þessa tillögu samþykkti Ólafur F. Ef hann sem verðandi borgarstjóri hefði lagst gegn þessari tillögu hefði hún ekki náð fram að ganga," segir Vilhjálmur og fullyrðir að það hafi Ólafur ekki gert. „Að hann kjósi nú að leggja málið upp með þeim hætti sem hann gerir verður hann að eiga við sjálfan sig," segir Vilhjálmur að lokum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×