Innlent

Fær ekki bætur vegna gæsluvarðhalds í BMW-máli

MYND/Valli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfu manns um bætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti í tengslum við rannsókn BWM-málsins svokallaða.

Maðurinn fór fram á fjórar milljónir króna í skaðabætur fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í rúman mánuð vorið 2006 eftir að lögregla hafði lagt hald á rúm um 25 kíló af amfetamíni og kannabisefnum sem falin höfðu verið í BMW-bifreið sem flutt hafði verið til landsins. Fallið var frá máli á hendur sama sumar og því fór hann fram á bætur vegna þess að hann taldi sig hafa setið í gæsluvarðhaldi að ósekju.

Í dómi héraðsdóms segir að um hafi verið að ræða umfangsmikið mál en alls höfðu níu manns réttarstöðu sakborknings á einhverju stigi þess en fjórir voru ákærðir. Bent er á að framburður mannsins undir rannsókn málsins beri þess merki að hann kjósi að upplýsa ekki um mikilvæg atriði sem snúa að honum sjálfum og samskiptum hans við aðra grunaða í málinu á þeim tíma sem um ræðir. Hann hafi stuðlað að því að rannsóknin dróst á langinn og gæsluvarðhaldstíminn varð svo langur sem raun ber vitni.

„Þótt rannsóknin leiddi ekki til ákæru á hendur stefnanda verður ekki hjá því komist að líta svo á að framkoma hans við skýrslugjöfina hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað að því hversu gæsluvarðhaldsvist hans dróst á langinn," segir í dómnum. Því verði að sýkna ríkið af bótakröfu mannsins.

Þó segir dómurinn að aðfinnsluvert sé að stefnanda var ekki tilkynnt formlega um að málið hefði verið fellt niður gagnvart honum fyrr en í lok júní 2007. „Í ljósi málsatvika skapar slíkt þó ekki rétt til bóta honum til handa," segir dómurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×