Innlent

Fleiri hringja út af fjárhagsvandræðum

Fleiri hringja í Hjálparsíma Rauða krossins en áður. ,,Við finnum fyrir auknum hringingum í tengslum við fjármálavanda fólks og kvíða út af því," segir Elfa Dögg Leifsdóttir, verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins 1717.

,,Flestir eru að leita eftir einhverjum lausnum og við getum bent á það sem til staðar er. Við erum auðvitað ekki sérfræðingar í fjármálaráðgjöf en við erum til staðar og veitum virka hlustun. Svo eru aðrir sem vilja blása út og fá hlustun en sálrænn stuðningur er okkar sérsvið," segir Elfa og bætir við að Hjálparsíminn hafi ekki töfralausnir við fjárhagsvandræðum frekar en ráðamenn þjóðarinnar.

Elfa segir að fólk sem hringi reglulega í Hjálparsímann og er veikt fyrir, jafnvel með þunglyndi eða geðraskanir, hringi oftar þessa dagana og líði afar illa.

,,Okkar hlutverk er að róa fólk niður og reyna að benda á jákvæð atriði. Hver og einn þarf að snúa sér að sínum þjónustufulltrúa. Það eru mjög fá tilvik þar sem fólk er komið á barm örvæntingar," segir Elfa.

Aðspurð hvort starfsfólk Hjálparsímans hafi undirbúið sig sérstaklega til að taka við símtölum fólks með fjárhagsáhyggjur segir Elfa að svo sé. ,,Við stóðum fyrir átaksviku í vor í tengslum við fjárhagsvandamál fólk og þá tókum við saman upplýsingar og endurbættum handbókina okkar."

Vel gengur að manna Hjálparsímann með sjálfboðaliðum, að sögn Elfu sem fara í gegnum 40 klukkustunda þjálfun áður en þeir þeir taka til starfa.

Hjálparsíminn 1717 býður upp á gjaldfrjálsa þjónustu allan sólarhringinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×