Skoðun

Uppgjörið er margþætt

Birgir Hermannsson skrifar

Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra og núverandi forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar setti á laugardaginn ofaní við það fólk sem vill að einhver beri ábyrgð á hruni bankanna. Með heldur hrokafullu yfirlæti segir hann fólki frekar að líta í eigin barm og taka ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi, skoðunum eða skoðanaleysi.

Það er gömul saga og ný að áhugaleysi almennings í lýðræðisríki getur auðveldlega leitt til spillingar og hnignunar. Jeppakaup og flatskjáir hafa orðið að tákni fyrir ábyrgðarleysi almennings, sem þar með er dreginn í dilk með stjórnmálamönnum, embættismönnum og forkólfum í viðskiptum. Að baki lá ákveðin stjórnmálastefna, segir Sighvatur, og það er við hana, fremur en einstaklinga sem uppgjörið þarf að eiga sér stað. Hér einfaldar Sighvatur flókinn veruleika. Uppgjörið þarf að eiga sér stað á þremur sviðum þar sem eitt útilokar ekki annað.

Í fyrsta lagi er hér spurningin um stjórnmálastefnu eða hugmyndafræði. Frjálshyggja síðustu ára hefur beðið skipbrot jafnt á Íslandi sem á alþjóðlegum vettvangi og verður vart í tísku á næstunni. Hér má einnig minnast á stjórnmálastefnu í þrengri skilningi, t.d. afstöðuna til Evrópusambandsins. Þetta uppgjör vill Sighvatur ólmur að fari fram, en ég skil ekki hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé áhugi á slíku í samfélaginu. Þvert á móti sýnist mér að umræðan um þessa hluti sé fjörug og lifandi.

Í öðru lagi er spurt um ábyrgð einstaklinga, stjórnmálaflokka og stofnana ríkisins. Hér vísar hver á annan og enginn gengst við ábyrgð á nokkrum hlut. Hér er um alvarlegan lýðræðisvanda að ræða sem ekki getur gengið til lengdar. Ábyrgð getur verið með ýmsu móti: lagaleg, siðferðileg og pólitísk. Í raun og sanni má segja að hugtakið „pólitísk ábyrgð“ sé dautt á Íslandi, stjórnmálamenn þykjast ekki skilja hvað í því felst. Neiti ráðherrar að bera pólitíska ábyrgð á eigin málaflokkum gagnvart Alþingi, verður Alþingi að bera ábyrgð gagnvart kjósendum. Stjórnmálastefna er heldur ekki jafnskýrt aðskilin frá persónum og Sighvatur vill vera láta. Fyrir síðustu kosningar stærði til dæmis Geir Haarde forsætisráðherra sig af góðri stjórnun efnahagsmála, honum og stefnu hans flokks væri sérstaklega treystandi í þessu efni.

Þegar illa gengur getur forsætisráherra persónulega eða flokkur hans því ekki firrt sig ábyrgð og eðlilegt að kjósendur persónugeri vandann að hluta til. Hér bauð Geir upp í dans og getur ekki hætt í miðjum klíðum þegar honum sjálfum hentar.

Í þriðja lagi þarf að gera upp við viðhorf og leikreglur í stjórnmálum. Hrun efnahagslífsins hefur leitt til djúps vantrausts á stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum. Þetta á ekki síst við um þá klúbbstemmingu sem gildir í stjórnmálum; á bak við hanaatið leynist samtrygging sem felst meðal annars í því að enginn segir af sér trúnaðarstörfum á hverju sem gengur. Stöðuveitingar, hagsmunapot og valdasókn á kostnað hugmynda er fólki einnig ofarlega í huga.

Hvernig stjórnmálaflokkunum tekst að takast á við þennan þríþætta vanda verður að koma í ljós, en eins og staðan er í dag virðast þeir í djúpri kreppu. Takist flokkunum ekki að fóta sig í þessu landslagi mun þeim hnigna og jafnvel aðrir taka við. Stjórnvöldum mun einnig reynast erfitt að endurvekja traust og trú fólks á framtíðina, ef halda á áfram stjórnmálum eins og ekkert hafi í skorist. Hér stoðar lítt að fylgja fordæmi Sighvatar og bölsóttast fullur vandlætingar út í almenning fyrir að benda á „vonda fólkið á Alþingi“. Hafi Sighvatur rétt fyrir sér, er rökréttara að skipta um þjóð fremur en valdhafa.

Höfundur kennir stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.




Skoðun

Sjá meira


×