Innlent

Vilja að þingmenn fresti framhaldsskólafrumvarpi til hausts

MYND/Hrönn

Kennarafundur í Menntaskólanum við Hamrahlíð skorar á alþingismenn að fresta afgreiðslu frumvarps til laga um framhaldsskóla til hausts svo tóm gefist til að skoða ýmis atriði frumvarpsins betur. Þetta kemur fram í ályktun frá fundinum.

Þar segir enn fremur að ákveða þurfi, áður en frumvarpið verður samþykkt, hvert innihald íslensks stúdentsprófs eigi að vera. Liggja þurfi fyrir hversu mörg ár nám til stúdentsprófs tekur að jafnaði og hver einingafjöldi þess eigi að vera. „Fella þarf út ákvæði um svonefndar ECTS-einingar, þær eru hvergi notaðar í Evrópu á framhaldsskólastigi og upptaka þeirra nú þjónar ekki tilgangi," segir kennarafundurinn enn fremur.

Með þessu tekur kennarafundurinn undir með Félagi framhaldsskólakennara sem fyrir helgi lagði fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla. Næstu mánuði ætti að nota til þess að sníða af frumvarpinu helstu gallana og ná sáttum um þessi mikilvægu mál. Atkvæðagreiðsla eftir aðra umræðu um frumvarpið er fyrirhuguð á Alþingi nú á sjötta tímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×