Innlent

Lögregla rýmir Snælandsskóla vegna sprengju í nágrenninu

Gröfumaður gróf niður á sprengjuna.
Gröfumaður gróf niður á sprengjuna. MYND/Baldur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið að rýma svæði við Furugrund í Kópavogi eftir að verktaki gróf niður á sprengju á byggingarsvæði þar í nágrenninu.

Svæðið er nálægt Snælandsskóla og hefur lögregla tekið þá ákvörðun að rýma hluta skólans í varúðarskyni. Eru foreldrar beðnir um að sækja börn sín vegna þessa en þeim börnum sem ekki geta farið heim hefur verið komið í stofu í þeim hluta skólans sem er fjærst staðnum þar sem hin meinta sprengja fannst.

Lögregla hefur girt af svæðið og hefur töluverðan viðbúnað. Þá er búið að kalla til sprengjusérfræðinga til þess að skoða sprengjuna og er von á þeim fljótlega. Sprengjan fannst í mýri þegar vertaki var að grafa þar. Að sögn lögreglu er að líkindum um gamla sprengju að ræða, líklega frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×