Lífið

De Niro-veggspjald gagnrýnt

Staðsetning plakatsins úr kvikmyndinni Righteous Kill þótti orka tvímælis en það var sett upp á þeim stað þar sem Jean Charles de Menezes var drepinn 2005.
Staðsetning plakatsins úr kvikmyndinni Righteous Kill þótti orka tvímælis en það var sett upp á þeim stað þar sem Jean Charles de Menezes var drepinn 2005.

Siðanefnd samtaka auglýsenda í Bretlandi hefur úrskurðað að staðsetning kvikmyndaplakats nýjustu kvikmyndar Roberts De Niro og Al Pacino, Righteous Kill, hafi verið óviðeigandi á sínum tíma. Plakatinu var komið fyrir á Stockwell-lestastöðinni á meðan rannsókn fór fram á máli Jean Charles de Menezes sem myrtur var af breskum lögregluþjónum skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar í London í júlí.

Það sem fór mest fyrir brjóstið á samtökum auglýsenda var textabrotið: „There‘s nothing wrong with a little shooting as long as the right people get shot,“ sem myndi útleggjast á íslensku: „Það er ekkert að því að skjóta einhvern, svo lengi sem það er réttur maður sem verður fyrir skotinu.“ Í úrskurðinum kemur fram að hvergi er hvatt til ofbeldis á plakatinu en að aðstandendur myndarinnar hefðu mátt gera sér grein fyrir því að staðsetningin gæti orkað tvímælis í ljósi atburðanna. Hins vegar væri engin ástæða til þess að gera neitt frekar í málinu.

Tvær aðrar kvikmyndir voru teknar fyrir hjá siðanefndinni. Annars vegar glæpamyndin Rock N Rolla en plakat þeirrar myndar þótti hefja byssueign upp til skýjanna og hins vegar myndbrot úr kvikmyndinni Bangkok Dangerous með Nicolas Cage en það þótti of ofbeldisfullt til að vera sýnt fyrir klukkan níu á kvöldin. Siðanefndin hafnaði fyrri kröfunni en féllst á þá seinni og verður því myndbrot Bangkok Dangerous sýnt seinna á kvöldin í bresku sjónvarpi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.