Innlent

Spurt um Breiðavíkurmálið í borgarráði

Á borgarráðsfundi sem lauk á tólfta tímanum í dag lögðu fulltrúar minnihlutans í ráðinu fram fyrirspurn sem snýr að afdrifum Breiðavíkurmálsins svokallaða í borgarkerfinu. Í mars var samþykkt að taka málið til ítarlegrar skoðunnar innan borgarinnar og vilja minnihlutamenn nú fá að vita hvernig þeirri skoðun hefur miðað.

„Fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu frumkvæði að ítarlegri umfjöllun borgarráðs um Breiðavíkurskýrsluna svonefndu í byrjun mars sl.", segir í fyrirspurninni.

„Í kjölfarið sameinaðist borgarráð um neðangreinda samþykkt:

Borgarráð samþykkir í tilefni skýrslu um könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952-1979:

1. Að haft verði samráð við Breiðavíkursamtökin um viðbrögð og næstu skref Reykjavíkurborgar í kjölfar Breiðavíkurskýrslunnar.

2. Að könnuð verði staða undirbúnings á frumvarpi forsætisráðherra vegna Breiðavíkurskýrslunnar.

3. Að samantekt verði gerð um viðbrögð stjórnvalda, og sveitarfélaga sérstaklega, í sambærilegum málum sem upp hafa komið á undanförnum árum á Norðurlöndum.

4. Að lagt verði mat á það hvort Reykjavíkurborg telji tilefni til að kanna frekar starfsemi á öðrum heimilum og úrræðum barnaverndaryfirvalda, fyrr og nú.

Óskað er upplýsinga um stöðu málsins og afdrif samþykktarinnar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×