Innlent

Vinnustöðvun samhliða leiknum við Spánverja

Íslenskt samfélag lagðist á hliðina um hádegisbil í dag þegar þjóðin fylgdist með sigri strákanna. Hvert sem komið var, í banka eða á barnaheimili þá áttI landsliðið athyglina óskipta.

Gríðarlegur áhugi var fyrir leiknum í dag og strax eftir sigurinn gegn Pólverjum var farið að tala um vinnustöðvun á mörgum vinnustöðum. Yngsta kynslóðin lifði sig mikið inn í stemmninguna eins og þessir krakkar á leikskólanum Austurborg. Allir málaðir í framan og vel með á nótunum.

Í félags- og þjónustumiðstöð aldraðra að Vesturgötu 7 söfnuðust eldri borgarar saman og fylgdust spenntir með. Fjölmargir vinnustaðir voru undirlagðir undir leikinn, meðal annars í höfuðstöðvum Kaupþings.

Sportbarir borgarinnar voru sömuleiðis þétt setnir og á Players í Kópavogi var andrúmsloftið þrungið spennu.

Áhuginn á landsleiknum hafði víða áhrif. Umferðin á þessum föstudegi var með minna móti eins og þessar myndir af þaki orkuveitunnar sýna og þetta athyglisverða línurit sýnir vatnsnotkun úr aðalæð orkuveitu Reykjavíkur númer 2 meðan á leiknum stóð. Notkunin rýkur upp bæði í hálfleik og strax eftir leik og nær síðan hámarki þegar útsendingu lýkur. Enda ekkert óeðlilegt að fólk hafi haldið í sér á meðan leikurinn stóð yfir, slík var spennan og dramatíkin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×