Skoðun

Mannréttindi kvenna ekki munaður

Nýlega var haldið 16 daga átak gegn kynbundu ofbeldi í 18. sinn. Með átakinu hefur frá 1991 verið unnið að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot en samtök um allan heim nýta það til að krefjast aðstoðar og stuðnings til handa fórnarlömbum ofbeldis, til að styrkja forvarnastarf og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þolenda. Átakið hefur einnig beint sjónum að því að alþjóðlegum mannréttindareglum sé beitt til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi sem mannréttindabroti, heilbrigðisvandamáli og ógn við mannfrelsi og frið um allan heim.

Margt hefur áunnist undanfarin ár í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi. Stjórnvöld hafa nýlega gert ítarlega aðgerðaáætlun gegn ofbeldi á heimilum og kynferðisofbeldi, fært hegningarlög til betra horfs og aðgerðaáætlun gegn mansali er í smíðum. Þá hafa Stígamót, Kvennaathvarfið og Neyðarmóttaka vegna nauðgana aðstoðað þúsundir kvenna sem beittar hafa verið kynbundnu ofbeldi með fulltingi hins opinbera og sveitarfélaganna.

Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða og skera niður á mörgum sviðum. Brýnt er að fyrirhugaður niðurskurður bitni ekki á aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi og aðstoð við fórnarlömb sem nú þegar er afar þröngur stakkur skorinn. Rannsóknir sýna að efnahagsþrengingar geta leitt til aukins kynbundins ofbeldis og þegar leita fleiri konur til Kvennaathvarfsins en vant er.

Stöndum vörð um mannhelgi og mannréttindi kvenna á þessum örlagatímum. Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og aðstoð við þolendur er ekki munaður sem kasta má fyrir róða þegar skórinn kreppir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.






Skoðun

Sjá meira


×