Innlent

Antík ef ég væri bíll

„Ég er nú bara búin að eiga bílinn í þrjár vikur þannig að það er ekki komin mikil rúntreynsla ennþá,“ segir Guðbjörg Helga.
„Ég er nú bara búin að eiga bílinn í þrjár vikur þannig að það er ekki komin mikil rúntreynsla ennþá,“ segir Guðbjörg Helga. Mynd/GKS
„Þetta kom mér algerlega á óvart, ég fékk bara sjokk og titraði og skalf,“ segir Guðbjörg Helga hlæjandi þegar hún rifjar upp stundina fyrir þremur vikum er hennar heittelskaði færði henni glæsilegan farkost að gjöf. „Ég hélt garðveislu uppi í sveit og pabbi kom akandi á bílnum þangað. Hafði farið á einhvern bæ að sækja hann því maðurinn minn taldi það líta illa út ef hann færi sjálfur úr veislunni.“

Bíllinn er af gerðinni Buick Special og módelið er 1956 svo hann fellur inn í fornbíladeildina. Það er eigandinn ánægður með. „Ég hef verið með fornbíladellu frá því ég man eftir mér og öll mín fjölskylda er veik fyrir fallegum farartækjum. Þetta er samt fyrsti fornbíllinn sem ég eignast,“ segir Guðbjörg. „Það er vissulega kominn tími á einn slíkan því nú er ég orðin fertug og teldist „antík“ ef ég væri bíll!“

Hún segir mikla bílamenningu á Selfossi og fornbílaklúbbinn öflugan. Þar er hún þegar búin að skrá sig. „Það er stór hópur í fornbílaklúbbnum hér og ég hlakka mikið til að vera með því góða fólki.“

Spurð hvernig tilfinningin sé að sitja undir stýri á svona kagga svarar Guðbjörg: „Ég er nú bara búin að eiga hann í þrjár vikur þannig að það er ekki komin mikil rúntreynsla á hann ennþá,“ segir hún brosandi. „En það er fallegt í honum hljóðið.“

gun@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×