Lífið

Uppselt á styrktartónleikana tíunda árið í röð

Einar Bárðarson er á meðal skipuleggjenda tónleikanna.
Einar Bárðarson er á meðal skipuleggjenda tónleikanna.

Uppselt er á árlega tónleika til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna í Háskólabíói sem haldnir verða á morgun, laugardag. Það er athafnamaðurinn Einar Bárðarson sem skipuleggur tónleikana ásamt vinum sínum og vandamönnum úr tónlistarbransanum. Tónleikarnir voru fyrst haldnir árið 1998 og alltaf hefur Einari og félögum tekist að fylla Háskólabíó.

„Tónleikarnir voru fyrst haldnir 29. desember árið 1998 og það var engin annar en Jóhannes Jónsson stórkaupmaður sem kynnti tónleikanna það árið en meðal þeirra sem komu fram þá voru Sálin hans Jóns míns og Skítamórall," segir í tilkynningu frá Einari. Hann bætir því við að sterkar hefðir hafi myndast í kringum þessa tónleika sem eru haldnir milli jóla og nýárs ár hvert. „Þeir hafa alltaf verið haldnir í Háskólabíó og EB Kerfi hafa alltaf séð um tækjabúnað."

Bylgjan og Stöð 2 hafa einnig ávallt stutt verkefnið og segir Einar afar ánægjulegt hvað þessi fyrirtæki hafa stutt myndarlega verkefnið ár eftir ár. „Þá má líka minnast á það að Sálin hans Jóns míns hefur komið fram á 9 af 10 tónleikum en Stefán Hilmarsson söngvari hefur komið fram öll 10 árin," segir Einar.

Það þarf ekki að taka það fram að allir gefa vinnu sína og öll tæki koma og fara án endurgjalds. „Hver einasta króna af seldum miðum hefur ALLTAF verið afhent ÖLL í einni ávísun í hléi á tónleikunum í votta viðurvist. Framlög til tónleikanna hafa einni borist í nafni tónleikanna og er skemmst að minnast 600.000 króna framlags velunnnara tónleikanna í fyrra sem barst í gegnum síma."

Þeir sem ljá málefninu lið þetta árið eru: Lay Low, Sálin hans Jóns míns, Sprengjuhöllin, Helgi Björnsson, Bubbi Morthens, Páll Óskar, Skítamórall, Ragga Gröndal, Ingo Veðurguð, Stuðmenn, Friðrik Ómar og Regína og Klaufarnir.

Þeir sem ekki eiga heimagengt en vilja styðja við SKB er bent á reikning 301-26-545 - Kennitala SKB er 630591 1129 - allar nánari upplýsingar má nálgast á www.skb.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.