Innlent

Hart deilt á hitafundi í Frjálslynda flokknum

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins.
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins.
„Ég verð að segja alveg eins og er að mér er nóg boðið," sagði Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokkinn. Hann gagnrýndi harðlega innra starf Frjálslynda flokksins á miklum hitafundi sem fram fór á Grand Hótel nú í kvöld. Jón Magnússon, þingmaður flokksins, og Guðjón Arnar Kristjánsson formaður héldu framsögur



Gagnrýnir mannaráðningar á skrifstofu flokksins



Jón sagði að flokkurinn yrði að ná góðri stöðu í Reykjavík og suð-vestur kjördæmi til að ná árangri. Flokksfélagar þyrftu að taka tillit til þess. Til þess að svo mætti vera þyrfti að hafa öflugt innra starf í Reykjavík. Jón sagði jafnframt að þegar félög Frjálslynda flokksins í Reykjavík og borgarmálafélag hefðu verið stofnuð hefði flokksforystan reynt að vinna gegn stofnun þeirra. Þá sagði Jón að deilur sem hefðu komið upp fyrst eftir síðustu kosningar hefðu fyrst og fremst snúist um mannaráðningar á skrifstofu flokksins. Hann gagnrýnir aðferðafræði við mannaráðningar og segir eðlilegt að hann sem þingmaður flokksins hefði átt að koma að þeim.



Kvartar undan aðdróttunum



Jón Magnússon sagði að allt frá því að hann og aðrir félagar úr Nýju afli hefðu gengið í Frjálslynda flokkinn hefðu þeir þurft að þola ágjöf frá ýmsum úr flokknum. Þá sagði Jón að trúnaðarbrestur hefði komið upp gagnvart sér. Hann kvartaði yfir því að aðdróttunum sem hann og fleiri hefðu orðið fyrir vegna hugmynda þeirra í málefnum innflytjenda. Þær aðdróttanir hefðu meðal annars komið frá Kristni H. Gunnarssyni, en jafnframt frá launuðum starfsmönnum flokksins. Hann sagði að reynt hefði verið að ýfa upp fjölda mála sem ágreiningur hefði verið um í flokknum og sagði að sér væri nóg boðið. Hann vildi ekki standa í slíkri orrahríð. Hann sagðist telja að hægt væri að gera flokkinn að góðri, vígreifri baráttusveit, en til þess þyrfti flokkurinn að standa saman.



Ekki deilt um málefni



Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, sagði að á þeim 10 árum sem flokkurinn hefði starfað hefði oft komið upp átök á milli manna. Þessi átök hefðu leitt til þess að fólk hefði yfirgefið flokkinn í fússi. Þar á meðal væru fyrrverandi varaformaður flokksins, fyrrverandi þingmaður hefði farið í Sjálfstæðisflokkinn og sömu sögu væri að segja af fyrrverandi bæjarfulltrúa flokksins. Fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi framkvæmdastjóri hefðu sömuleiðis horfið á braut. Guðjón Arnar tók hins vegar skýrt fram að á þeim tíma sem flokkurinn hefði starfað hefði ekki verið málefnalegur ágreiningur á milli manna. Sá ágreiningur sem hefði komið upp hefði einungis snúist um völd og skiptingu embætta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×