Erlent

Segjast hafa hert leitina að Mladic

Stjórnvöld í Serbíu hafa hert mjög leitina að hershöfðingjanum Ratko Mladic. Hann stjórnaði persónulega fjöldamorðunum í Srebrenica í Bosníustríðinu.

Ratko Mladic og Radovan Karadzic voru þeir Serbar sem stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefur lagt höfuðáherslu á að fá í sínar hendur. Þeir hafa báðir verið ákærðir fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu fyrir framferði sitt í Bosníustríðinu.

Meðal annars báru þeir ábyrgð á morðum á um áttaþúsund múslimum í bænum Srebrenica, sem hafði verið lýstur griðastaður Sameinuðu þjóðanna. Einnig hafa þeir verið ákærðir fyrir að bera ábyrgð á 43 mánaða umsátri um Sarajevo.

Ratko Mladic stjórnaði persónulega fjöldamorðunum í Srebrenica. Til eru sjónvarpsmyndir af honum þar sem hann gengur um meðal íbúanna og lofar þeim að allt verði í lagi. Það eigi bara að flytja þá á öruggan stað.

Mladic klappar börnum á kollinn og hann og hermenn hans gefa þeim sælgæti. Fólkið fór því upp í rúturnar og var flutt beint á aftökustað þar sem það var myrt.

Innganga Serbíu í Evrópusambandið er háð því að stríðsglæpamenn landsins komi fyrir dóm. Ný ríkisstjórn landsins leggur höfuðáherslu á það og Radovan Karadzic var handtekinn fyrir hálfum mánuði.

Fulltrúi ríkisstjórnarinnar gagnvart stríðsglæpadómstólnum sagði fréttamönnum í dag að margra nýrra leiða væri nú leitað til þess að hafa upp á hershöfðingjanum.

Varnarmálaráðherra Serbíu hvatti Mladic til að gefa sig fram. Óþolandi væri að hann héldi allri þjóð sinni í gíslingu lengur. Víst þykir að hershöfðinginn njóti aðstoðar þjóðernissinna við að fela sig, af þeim er ennþá nóg í Serbíu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×