Innlent

Draugur við stýrið í útafakstri?

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag karlmann af ákæru um ölvunarakstur þar sem ekki var talið hafið yfir vafa af hann hefði verið undir stýri.

Samkvæmt ákæru á maðurinn að hafa verið undir áhrifum áfengis og kókaíns þegar hann missti stjórn á bíl í Svínahrauni og hafnaði bíllinn utan vegar. Það var vegfarandi sem hirti hann og tvo félaga hans upp eftir að bíllinn hafnaði utan vegar og ók þeim að Litlu-Kaffistofunni þar sem lögregla hafði afskipti af þeim.

Fyrir dómi neitaði maðurinn sök og sagði fjórða mann hafa ekið bílnum. Samferðarmenn hans tveir sögðust enn fremur ekki muna hver var við stýrið. Þótti dómnum það með ólíkindum og sömuleiðis frásögnin um fjórða manninn sem átti að hafa ekið og hvarf sporlaust eftir óhappið.

Þrátt fyrir þetta væri ekki komin fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hefði ekið bílnum þar sem sá sem tók þá upp í bíl sinn eftir óhappið gat ekki staðfest að ákærði hefði verið við stýrið. Var hann því sýknaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×