Innlent

Leggja fram frummatsskýrslu vegna kísilverksmiðju í Helguvík

MYND/Pjetur

Tomahawk Development, félag í eigu íslenskra og danskra aðila, hefur lagt fram frummatsskýrslu um umhverfisáhrif fyrir fyrirhugaða kísilverksmiðju í Helguvík. Í tilkynningu frá Skipulagsstofnun segir að hægt sé að gera athugasemdir við skýrsluna til 8. júlí.

Í frummatsskýrslunni kemur fram að forsvarsmenn Tomahawk hyggist í fyrstu framleiða grófan kísil en síðar er áformað að bæta við framleiðslu á mjög hreinum kísli og að lokum að framleiða sólarrafhlöður. Frummatsskýrslan sem nú er til kynningar er eingöngu unnin fyrir fyrsta áfanga. Stefnt er að því að ársframleiðsla kísilverksmiðjunnar verði allt að 50 þúsund tonn.

Þá segir í skýrslunni að ekki liggi fyrir hvort unnt verði að tryggja nægjanlega orku til starfseminnar og af þeim sökum sé gert ráð fyrir að fyrsti áfangi verði byggður upp í þrepum. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við verksmiðjuna geti hafist seint á þessu ári og er vonast til að full starfsemi 50 þúsund tonna ársframleiðslu náist árið 2012.

Reiknað er með um 90 störfum í verksmiðjunni þegar 1. áfangi er fullbyggður. Fram kemur að ekki verði þörf á þynningarsvæði umhverfis verksmiðjuna en starfsemin muni hafa í för með sér losun á allt að 180.000 tonnum á ári af koltvísýringi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×