Innlent

Dagbók Matthíasar: Forsetinn notaði kreditkort Alþýðubandalagsins

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, birti um helgina enn eitt brotið úr dagbókum sínum sem hann hélt á meðan hann var ritstjóri. Þar kemur fram í samtali við Svavar Gestsson að Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, hafi verið með kreditkort frá flokknum og notað það óspart.

Orðrétt segir Matthías að Svavar hafi sagt að hann [Ólafur Ragnar, innsk. blm.] hafi komið sér upp Visa-gullkorti í nafni Alþýðubandalagsins og notað það óspart.

Svavar er þó ekki hættur að sögn Matthíasar og talar því næst um fjármálaóreiðu sem hann segir hafa einkennt formennskutíð Ólafs Ragnars hjá Alþýðubandalaginu.

„Þegar Margrét Frímannsdóttir tók við flokknum bárust henni reikningar eins og skæðadrífa og hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það var viðskilnaður Ólafs Ragnars. Þegar Margrét tók við af honum skuldaði Alþýðubandalagið 53 milljónir króna! segir Svavar. Ólafur Ragnar gerði þá samning við Landsbankann um að Alþýðubandalagið fengi 107 milljón króna lán og greiddi það með þeim 20 milljón króna árlegum afborgunum sem það fékk í blaðstyrki frá Alþingi ár hvert. Þar var tekið fram að Alþýðubandalagið greiddi þetta meðan Þjóðviljinn kæmi út, en hann dó drottni sínum einu og hálfu ári síðar, svo að Landsbankinn varð að afskrifa skuldina sem eftir var!" segir í dagbókinni.



 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×