Innlent

Siggi varar við stormi

Breki Logason skrifar
Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur.
Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur.

Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir nauðsynlegt fyrir fólk að huga að niðurföllum og frárennslum frá húsum í dag. Búist er við miklu vatnsvirði og víða slær í storm á landinu. Hann segir rokeldspýtur og vatnsþolin kerti spila stórt hlutverk í kirkjugörðunum á aðfangadag. Sjálfur þurfti Siggi að nota járnkall við losun stíflu á niðurfalli.

„Við erum fyrst og fremst að horfa til þess að mikil snjóalög eru að losna og við erum að sigla inn í mikið vatnsvirði sem nær hámarki um miðjan dag í dag. Það er því nauðsynlegt að huga að niðurföllum og frárennslum frá húsum sem geta verið stífluð vegna klaka. Það er ekkert svakalega spennandi að vera með stofuna eins og sundlaug, sérstaklega ef maður er búinn að skreyta tréið," segir Siggi í samtali við Vísi.

Siggi segir að hitinn sé á hraðri uppleið og býst við 5-10 stiga hita síðar í dag. „Auk þess er mjög hvasst á sunnan og vestanverðu landinu og það slær í storma þarna síðdegis og í kvöld."

Það er hinsvegar fyrst og fremst vatnstjón sem Siggi óttast en í gærmorgun mældist 19 cm afall af snjó í Reykjavík. „Þetta vatn þarf að komast eitthvað."

Siggi bendir einnig á að jólaskreytingarnar þurfi að þola smá læti. „Það er leiðinlegt að eltast við þær inn í görðum hjá nágrönnunum, þó það sé nú alltaf gaman að hitta nágrannann."

Ekki á að lægja neitt fyrr en á jóladag en hann býst einnig við skúraveðri á Þorláksmessu og aðfangadag. „Ég veit því ekki með skreytingar í kirkjugörðunum en það verða allavega rokeldspýtur og vatnsþolin kerti."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×