Innlent

Stórir marglyttuflákar við ströndina

Stórra marglyttufláka hefur orðið vart hér og þar út af ströndum landsins upp á síðkastið. Sums staðar eru þeir svo þéttir og þykkir að þeir lægja öldur. Eitraðar marglyttur hafa ekki enn borist hingað til lands, svo vitað sé, en þær hafa nú borist að Bretlandsströndum.

Flákarnir geta verið að minnsta kosti 200 femetra stórir, eins og sáust í Hvalfirði fyrir helgi, og svo geta þeir verið margra laga þykkir. Fjöldinn í slíkum flákum skiptir jafnvel hundruðum þúsunda.

Þá er fréttastofu Stöðvar 2 kunnugt um að marglyttuflákar hafi sést á stöðum þar sem þeir hafa ekki verið áður. Þegar bátum er siglt í gengum flákana er eins og sulta sé í skrúfuröstinni. Enginn sérfróður maður um marglyttur er tiltækur á Hafrannsóknastofnun þessa stundina en eftir því sem fréttastofan kemst næst hefur ekki verið gerð vísindaleg úttekt á útbreiðslu hennar hér við land. Það liggur því ekki óyggjandi fyrir að hún sé að færast í aukana.

Algengasta tegundin hér við land nefnist árelía og getur sviðið undan henni. Önnur og sjaldgæfari tegund er enn verri, en eitruð afbrigði marglyttu, sem herja á ónæmiskerfi fólks, hafa ekki enn borist hingað frá suðlægari slóðum. Sú tegund er þó farin að gera sig heimakomna við Bretlandseyjar og samkvæmt því gæti hún allt eins ratað hingað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×