Innlent

Segja rekstrargrundvöll fjölda sauðfjárbænda brostinn

MYND/GVA

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda segir að rekstrargrundvöllur fjölda sauðfjárbænda sé brostinn ef hækkun á afurðaverði til bænda í haust verður aðeins 15 prósent eins og verðlisti Norðlenska gefur til kynna.

Í ályktun sem stjórnin samþykkti á fundi í sínum í gær er lýst yfir miklum áhyggjum af málinu og bent á að aðalfundur samtakanna hafi fyrr á árinu samþykkt að afurðaverð þyrfti að hækka að lágmarki um 98 krónur á kíló, eða um 27 prósent, fyrir komandi sláturtíð.

Segja sauðfjárbændur samþykktina mjög hóflega miðað við þær miklu hækkanir sem dunið hafa á bændum síðustu mánuði á öllum aðföngum, eins og áburði og olíu.

„Í verðskrá Norðlenska sem er sú eina sem enn hefur verið gefin, út er hækkun meðalverðs 54 krónur á kíló frá landsmeðaltali 2007 sem var 363 krónur. Sú hækkun dugir ekki einu sinnu til að mæta áburðarverðshækkuninni á þessu ári sem þýddi 64 króna aukinn kostnað á kíló. Verði þetta niðurstaðan þýðir það einfaldlega að fjöldi sauðfjárbænda mun ekki geta haldið áfram rekstri, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sláturleyfishafa.

Stjórn LS hvetur Norðlenska og aðra sláturleyfishafa sem eiga eftir að gefa út verðskrár til þess að hafa ofangreind sjónarmið í huga áður en endanlegar verðskrár verða gefnar út. Sauðfjárræktin þolir ekki minni hækkun heldur en þá sem viðmiðunarverð samtakanna gerir ráð fyrir," segir enn fremur í ályktuninni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×