Innlent

Styrktu Krabbameinsfélagið í stað þess að gefa jólagjafir

Á myndinni til vinstri er Sveinn Sigurður Kjartansson, hjá Skyggni og hinum megin við Guðrúnu Agnarsdóttur er Stefán Þór Stefánsson hjá TM Software.
Á myndinni til vinstri er Sveinn Sigurður Kjartansson, hjá Skyggni og hinum megin við Guðrúnu Agnarsdóttur er Stefán Þór Stefánsson hjá TM Software.

Systurfyrirtækin TM Software, eMR og Skyggnir ákváðu að styðja við bakið á starfsemi Krabbameinsfélags Íslands og veita félaginu jólagjöf í formi fjárstyrks að andvirði þeirrar fjárhæðar sem hefur hingað til verið varið í jólagjafir og jólakort til viðskiptavina.

„Í ár ákváðum við að breyta til og styðja við góðgerðarsamtök," segir Stefán Þór Stefánsson hjá TM Software. „Okkur fannst tilvalið að styðja Krabbameinsfélag Íslands, sem vinnur mjög gott starf sem enginn Íslendingur hefur farið varhluta af og það er ánægjulegt að geta lagt starfi Krabbameinsfélagsins lið á tímum þegar erfitt getur verið að falast eftir styrktarfé hjá atvinnulífinu."

Gjöf af þessu tagi skiptir miklu máli fyrir starfsemi Krabbameinsfélags Íslands, að sögn Guðrúnar Agnarsdóttur forstjóra Krabbameinsfélags Íslands.

„Við erum afar þakklát fyrir þessa gjöf, en Krabbameinsfélagið treystir að stórum hluta á velvilja einstaklinga og fyrirtækja. Við rekum hér afar fjölbreytta starfsemi og jólagjöf af þessu tagi nýtist því sannarlega vel."

TM Software, eMR og Skyggnir eru dótturfélög Nýherja og starfa öll á sviði upplýsingatækni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×