Innlent

Fjórtán hross dauð

Fjórtán hross hafa drepist úr salmonellusýkingu í Mosfellsbæ og tuttugu og sex hross til viðbótar eru í gjörgæslu. Átta dýralæknar hafa í dag unnið að því að bjarga hrossunum.

Á sunnudaginn fannst dauður hestur í hjörð sem var á útigangi við Kjalarnes. Strax var athugað með restina af hjörðinni og kom þá í ljós að hestarnir voru veikir en alls voru þeir fjörtíu. Hrossin voru flutt í Mosfellsbæ þar sem dýralæknar og eigendur þeirra hafa hlúð að þeim.

Gunnar Örn Guðmundsson, héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarumdæmis, segir að svo virðist sem að dýrin hafi sýkst af salmonellu í gegnum fóður eða vatn. Alls hafa fjórtán hestar drepist og útlit er fyrir að aflífa þurfi einn til viðbótar. Um helmingur þeirra hefur drepist í dag. Gunnar segir að allt hafi litið betur út í gær og svo virtist sem dýrin væru að hressast en sigið hafi á ógæfuhliðina í dag.

Hestarnir eru á bilinu fjögurra til fimmtán vetra og flestir tamdir. Hluti hestanna er í hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ en restin í húsi við bæinn Teig. Gunnar óttast ekki að sýkingin berist í önnur dýr þar sem þau eru lokuð inni í sér húsum. Hann segir þó mikilvægt að þeir sem umgangist dýrin gæti hreinlætis. Hross megi ekki komast í skít eða óhreinindi frá þessum hestum, ef þeir geri það þá gætu þeir smitast. Sýkingin smitast hins vegar eingöngu um munn og berst ekki með lofti.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×