Innlent

Íslendingar eru 319.756 talsins

Undanfarin fjögur ár hefur fólksfjölgun verið óvenju mikil hér á landi. Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 319.756 hinn 1. desember síðastliðinn samanborið við 312.872 ári áður. Þetta jafngildir því að íbúum hafi fjölgað um 2,2% á einu ári. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunar yfir mannfjölda sem nýverið voru birtar.

Karlar fleiri en konur

Karlar voru 5320 fleiri en konur hér á landi 1. desember. Þá voru karlar samtals 162.538 en konur voru 157.218 talsins.

Íslendingar verða 408.835 árið 2050

Samkvæmt spá um mannfjölda á Íslandi verða landsmenn 408.835 árið 2050 en íbúafjöldi var 313.376 við upphaf spátímabils hinn 1. janúar 2008.

Árleg fólksfjölgun verður að meðaltali 0,6% sem er minni fjölgun en var á síðari hluta 20. aldar. Landsmönnum mun þó fyrirsjáanlega fækka fyrstu tvö ár spátímabilsins. Þetta kemur fram í Spá um mannfjölda 2008-2050 í ritröð Hagtíðinda undir efnisflokknum Mannfjöldi sem komin er út.

Mest fólksfjölgun á öldinni var 2006

Það sem af er öldinni varð fólksfjölgun mest á árinu 2006 en það ár fjölgaði landsmönnum um 2,6%. Hvort sem litið er til annarra þjóða eða til fyrri tímabila hér á landi er þetta afar mikil fólksfjölgun. Jafnmikil fólksfjölgun hefur ekki orðið hér á landi síðan um miðbik sjöunda áratugs 20. aldar og í engu öðru Evrópulandi er fólksfjölgun jafnmikil og hér.

Þótt fæðingartíðni hafi lækkað hér á landi er hún enn há í evrópsku samhengi. Konur hér á landi eignast nú rúmlega tvö börn um ævina. Náttúruleg fólksfjölgun var mest hér á landi frá lokum seinni heimsstyrjaldar til miðs sjöunda áratugarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×