Innlent

Ósanngjarnt að niðurskurðurinn skuli bitna á börnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans við Dalbraut.
Frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans við Dalbraut.
Það er ákaflega ósanngjarnt að niðurskurður á fjárlögum skuli bitna á börnum sem glíma við geðraskanir, segir Ingibjörg Karlsdóttir, formaður ADHD samtakanna. „Vegna þess að þjónustu við þennan hóp hefur verið mjög ábótavant um árabil," segir Ingibjörg.

Vísir greindi frá því í gær að til stæði að leggja niður göngudeildarþjónustu barnageðlæknisins á Akureyri vegna niðurskurðar á fjárlögum. Hann er eini starfandi barnageðlæknirinn utan höfuðborgarsvæðisins.

„Það sem stóð til var að efla þjónustuna fyrir framtíðina. Það var í pípunum," segir Ingibjörg. Hún segir að nefnd sem starfaði á vegum félagsmálaráðuneytis hafi unnið skýrslu um úrbætur í málefnum barna með athyglisbrest og ofvirkni. Samkvæmt fjárlögum hafi átt að koma þessum tillögum í framkvæmd í áföngum og staðið hafi til að ráðstafa 34 fjórum milljónum í verkefnið samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2009, eins og það leit út áður en kreppan skall á. Nú sé hins vegar alveg óljóst hvað verði um þær fyrirætlanir. „Við vitum að félagsmálaráðherra hefur staðið vörð um þennan málaflokk en óljóst er hvaða afgreiðslu málið fær hjá Alþingi og fjárlaganefnd," segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir að það felist í því mikil forvörn að hlúa að börnum með ADHD því að alvarlegir fylgikvillar geti fylgt slíkri taugaþroskaröskun. Mikil hætta sé á að börn með ADHD þrói með sér alvarlegri geðraskanir og jafnvel vímuefnavanda. Þá lendi börnin oft í vandræðum í skólakerfinu. „Rannsóknir hafa sýnt að ofvirk börn eru stærsti streituvaldurinn í starfi kennara," segir Ingibjörg. Hún segir því að með því að draga úr þjónustu við börnin sé einungis verið að skapa samfélaginu meiri kostnað í framtíðinni.

Ingibjörg segir að það sé almennt viðurkennt að þörf fyrir þjónustu við ofvirk börn sé mikil á landsbyggðinni. Þessi niðurskurður sé því mjög slæmur. „Mikið álag fylgir því að eiga barn með athyglisbrest og ofvirkni og nú mun álagið aukast enn frekar fyrir fjölskyldur þessara barna á landsbyggðinni og stóraukinn kostnaður fylgir ferðum til að sækja þjónustuna á höfuðborgarsvæðið," segir Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×