Innlent

Seinir að sækja um hjá Lögregluskólanum

Frá æfingu lögeglunema.
Frá æfingu lögeglunema. MYND/Lögregluskóli ríkisins

Frestur til að sækja um í Lögregluskóla ríkisins fyrir næsta vetur rennur út 1. maí en hann var framlengdur á dögunum. Forsvarsmenn þar segja það ekki vegna skorts á umsóknum heldur hafi skapast hefð fyrir því. Búist er við allt að 50 nemendum á næsta vetri.

Athygli vakti að Lögregluskóli ríkisins auglýsti um helgina að umsóknarfrestur fyrir nám í skólanum yrði framlengdur til 1. maí en hann var áður 26. apríl. Að sögn Arnars Guðmundssonarskólastjóra hafa menn gefið sér tíma í að afla umsókna og oftar en ekki framlengt umsóknarfrestinn. Það sé vel þekkt að Íslendingar séu oft á síðustu stundu með hluti.

Að sögn Arnars er ætlunin að taka inn einn nýliðabekk í haust, um sextán manns, en auk hans verða tveir bekkir í seinni hluta náms síns eftir starfsnám hjá lögreglunni. Hugmyndin sé svo að taka inn tvo nýja bekki eftir áramót og því sé um allt að 48 nemendur að ræða á næsta ári.

Flestar umsóknir á síðustu dögunum

Sérstök valnefnd sér um að velja inn í skólann og fyrir henni fer Gunnlaugur V. Snævarr. Hann segir einnig að Lögregluskólinn hafi oft framlengt umsóknarfrestinn enda hafi það sýnt sig að flestar umsóknir berist á síðustu dögunum. Hann á því von á nokkrum fjölda umsókna í dag og á morgun. „Menn geta líka skilað inn umsóknum á fimmtudag og sent í pósti fyrir þann tíma en menn hafa undanfarin ár jafnvel komið að næturlagi og skilað inn umsóknum í bréfalúguna á síðustu stundu," segir Gunnlaugur. Hann segist þegar kominn með nokkra tugi umsókna.

Aðspurður hvort mikill skortur sé á lögreglumönnum segir Gunnlaugur að staðan sé þokkaleg. Það sé svolítið óljóst hversu margir verði teknir inn í skólann eftir áramót en þá verði tekið mið af þörfinni. „Þegar kreppir að koma oft gömlu mennirnir til baka," segir Gunnlaugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×