Innlent

Bæjarstjórar neita ásökunum samgönguráðherra

Samgönguráðherra segir að ekki sé hægt að tvöfalda hættulegasta kafla Suðurlandsvegar af því að heimamenn eigi eftir að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu. Bæjarstjórar á svæðinu hafna þessu og segja að ekkert standi upp á þá til að framkvæmdir við tvöföldun vegarins geti hafist á leiðinni milli Hveragerðis og Selfoss. Þar hafa orðið tólf banaslys á undanförnum árum.

Vinna við tvöföldun suðurlandsvegar hefst á næsta ári, þegar lagður verður fjögurra akreina vegur frá Reykjavík að Hveragerði. Beðið verður með hættulegasta vegarkaflann, leiðina frá Hveragerði til Selfoss. Þegar samgönguráðherra var spurður af hverju, sagði hann skipulagsvinnu hjá sveitarfélögum tefji fyrir tvöföldun vegarkaflans milli Hveragerðis og Selfoss.

Á síðustu árum hafa fjölmörg banaslys orðið á spotta milli Hveragerðis og Selfoss. Vegurinn er þröngur, gatnamót mörg og nú eru í honum misfellur eftir Suðurlandsskjálftunum í sumar. Sveitarstjórnarfulltrúar segja það lífsspursmál fyrir byggðina að hann verði bættur og að staðreyndin væri svo sannarlega ekki sú að skipulagsvinna þeirra kæmi í veg fyrir að framkvæmdir gætu hafist.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir skipulagsvinnu við kaflann flókna og því tímafrekari en leiðina Reykjavík Selfoss, þar sem skipulagið lá fyrir þegar ákvörðun var tekin um útboð. Sú leið liggur einnig í Ölfusi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×